Fjölskyldan á fjallið

Submitted by gunnars@arborg.is on Fri, 05/28/2021 - 08:46
Image
es


Fjölskyldan á fjallið

Fjölskyldan á fjallið er nýtt verkefni í sveitarfélaginu Árborg sem unnið er í samvinnu við Heilsueflandi samfélag og ferðafélag barnanna. Markmið verkefnisins er að hvetja fjölskyldur til útivistar, upplifa fallegu náttúruna okkar og skapa eftirminnilegar minningar saman. 

Fjöllin eru miserfið, en alltaf má fara styttri leið eða breyta til að vild. 

Erfiðleikastigin eru 4 talsins

Erfiðleikastig 1: Stutt og auðveld ganga sem hentar öllum í fjölskyldunni

Erfiðleikastig 2: Létt til miðlungserfið ganga sem ætti að henta öllum frá 5 ára aldri

Erfiðleikastig 3: Miðlungserfið ganga, mjög persónubundið en börn niður í 5 ára með áhuga fara þessa leið.

Erfiðleikastig 4: Miðlungserfið til erfið ganga sem hentar öllum sem eru vanir og hafa ágætis úthald.

 

Mikilvægt er að hafa með sér uppáhaldsnesti þegar farið er í göngu og að sjálfsögðu góða skapið. Kannski finnum við skemmtilega steina, sjáum skringileg skordýr eða rekumst jafnvel á nykurinn á vatninu? (Að sjálfsögðu tökum við alltaf toppamynd eða bara myndir og gaman væri ef þið mynduð tagga Sveitarfélagið Árborg á samfélagsmiðlum ef þið takið myndir)

 

Ingólfsfjall

Ingólfsfjall í Ölfusi er 551 m (Inghóll) á hæð yfir sjávarmáli. Fjallið er hlíðarbratt móbergsfjall með htaunlögum inn á milli, einkum að neðan og í kolli. Fjallið varð til um miðja ísöld og var sjávarhöfði í lok ísaldar þegar sjávarstaða var sem hæst.  Fjallið er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Upp á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður. Það er hömrum girt að mestu nema að norðanverðu, þar eru aflíðandi brekkur upp að fara. Að ofan er fjallið flatt. Það er um 5 km frá vestri til austurs en um 7 km frá norðri til suðurs. 

Fjölmargar leiðir eru færar upp á fjallið þó hin hefðbundna gönguleið austan Þórustaðanámu sé lang mest gengin. Á góðum sumardegi er fátt betra en reima á sig skóna og skunda upp að vörðu (400 m) þar sem gestabók Ferðafélags Árnesinga er staðsett. Gildir einu hvort þú ætlir þér að vera 20 mínútur á leiðinni upp eða tvær klukkustundir. Þegar upp á topp er komið mælum við að sjálfsögðu með toppamynd, njóta fallega útsýnisins, góðri nestispásu og að sjálfsögðu kvitta í gestabókina.

Upphafsstaður: Þórustaðanáma

Hækkun: Inghóll 551m, að vörðu um 400 m

Erfiðleikastig: 2-3

Hentar: fjölskylduganga, dagsganga. Fer auðvitað eftir einstaklingum en gott að miða við að gangan henti frá 5 ára aldri. 

Tími: frá 1-3klst

Ef gengið er frá Alviðru, er merkt gönguleið á fjallið sem tekur um 2 klst. Við upphaf göngunnar hjá Alviðru er upplýsingaskilti um leiðina á fjallið. Alviðra stendur undir Ingólfsfjalli við Sog, gengt Þrastalundi. 

 

Silfurberg

Suður úr vesturhorni fjallsins skagar grár klettamúli Silfurberg sem er úr móbergi með ljósum holufyllingum sem aðallega eru geislasteinaútfellingar. Stundum nefnt öxlin á Ingólfsfjalli. Létt og skemmtileg ganga sem hentar allri fjölskyldunni. 

Hækkun: ca 200 m

Erfiðleikastig: 1

 

Reykjafjall:

Reykjafjall er mjög gróið fjall og skógi vaxið. Best er að ganga á fjallið fyrir ofan Ölfusborgir. Gengið er uppá fjallið rétt áður en komið er að Ölfusborgum og er fallegt útsýni yfir Ölfusið og ströndina. Reykjafjall nær um 420 m hæð yfir sjávarmáli og er brún þess í um 140 – 160 m hæð ofan við byggðina í Hveragerði.

Á Reykjum var fyrrum aðsetur höfðingja en Gissur Jarl Þorvaldsson bjó þar á 13. öld og Oddur Gottskálksson vann að þýðingu Nýja testamentisins á 16. öld. Reykjafjall er í námunda við Henglasvæðið sem er eitt af stærstu jarðhitasvæðum landsins, í vestri og við Ingólfsfjall í vestri.

 

Upphafsstaður: Ölfusborgir

Hækkun: 340 m

Erfiðleikastig: 1-2

Tími: 2-3 klst

 

Bjarnafell

Bjarnafell í Ölfusi er 380 m yfir sjávarmáli. Fjallið er frekar létt uppgöngu og tekur ca 2 klst.

Til að komast að Bjarnafelli er ekið eftir þjóðvegi 1 milli Hveragerðis og Selfoss og beygt upp Hvammsveg nr. 374. Stoppað er við garðyrkjubýlið Nátthaga. Þar er bílum lagt og gengið upp með Æðargili upp á Bjarnafell. Byrjunarhæð er í um 80m yfir sjó og lengd göngunnar er um 6 km.

Gott útsýni er af Bjarnafelli.

Upphafsstaður: Nátthagi

Hækkun: 280 m 

Erfiðleikastig: 1-2

Tími: 2-3 klst

 

Hestfjall

Hestfjall er eitt af þekktari fjöllum í Grímsnesi. Hestfjall er um 320 metrar á hæð og er nær alveg umflotið vatni. Fjallið er nánast eins og þríhyrningur í lögun og er hæst nyrst en þar heita Hesteyru. Gengið er á Hestfjallið frá bænum Vatnsnesi, en tún bæjarins ná nánast að fjallinu. Hestfjall er eldfjall frá Ísöld, stapi með grágrýtisþekju á móbergsgrunni. Bólstraberg er neðst (sem myndast í sjó) og leifar af eldgýg eru við Hesteyru.

Gömul munnmæli segja að göng liggi undir fjallinu og að í þeim sé ægilegt skrímsli. Ef hins vegar skrímslið skríður burt mun Hvítá falla inn í göngin og þá þornar fyrir neðan þau.

Gaman er að segja frá því að Í og við Hestfjall áttu stóru Suðurlandsskjálftarnir árið 2000 upptök sín.

 

Upphafsstaður: Kiðjaberg (leið 1) eða bærinn Vatnsnes (leið2) 

Hækkun: 260 m 

Erfiðleikastig: 1-2

Lengd: leið 1: 9km, leið2: 11 km. 

Einnig er hægt að stytta ferðina og ganga aðeins upp og niður, þá er leiðin töluvert styttri í km og barnvænni.

Tími: 1-3 klst plús

 

 

Mosfell

Mosfell í Grímsnesi er móbergsfjall sem er 254 m hátt. Fjallið er mjög auðvelt í uppgöngu og hentar vel sem fjölskyldufjall.

Ekið er að Kirkjustaðnum Mosfelli, þar er heppilegast að ganga á fjallið og eru bílastæði þar.

Þægilegt er að ganga á fellið, gangan upp tekur um 30 mínútur. Á Mosfelli er mikið og fallegt útsýni.

Upphafsstaður: Kirkjustaðurinn Mosfell

Vegalengd: 2-5km

Erfiðleikastig: 1-2

Hækkun: 254 m yfir sjávarmáli

 

Miðfell

Miðfell er reisulegt fell fyrir miðju Úthlíðarhrauns og má segja að þetta sé bæjarfjall íbúa á Flúðum. Miðfell er 253 m á hæð yfir sjávarmáli.

Ljúf gönguleið á skemmtilegt fjall í Hreppnum. Alls ekki erfið leið og hentar því flestum gönguvönum. Best er að ganga á fjallið að norðaustan og er smá útskot við veginn þar sem við leggjum í hann. Leiðin liggur á ská til vinstri upp á fellið og þar er upplagt að ganga hring á fjallinu til að njóta útsýnis. Við sjáum strax að þokkalega stórt vatn er á toppnum, kallað Fjallsvatn Höldum svo sömu leið niður aftur. Leiðin er stikuð. Mikið og fallegt útsýni er af fjallinu. 

Í Miðfellsvatni er nykur og voru börn áminnt um að signa sig áður en þau fór að vatninu. Hélst sá siður langt fram eftir 20. öld.

Lengd: 5km

Hækkun: 150 m

Erfiðleikastig: 1-2

Tími. 2-3 klst

 

Vörðufell 392 m

Vörðufell á Skeiðum er móbergs- og grágrýtisfjall sem myndast hefur undir jökli ísaldar. Vegna legu fjallsins er mjög víðsýnt af hæstu tindum þess. Uppi á fjallinu er stöðuvatn sem heitir Úlfsvatn og úr því sunnanverðu rennur lítill lækur niður í Úlfsgil. Ef gengið er að vatninu (mikið á jafnsléttu) getur gangan orðið um 10km, alltaf hægt að ganga styttra ef fólk kýs það. 

Algeng leið er upp frá Helgustöðum. Þar hefst gangan við túnfótinn, tekin stefnan á Nóngilið og þar upp á fjallið, gengið er góðan hring umhverfis Úlfsvatn og niður aftur um Valagil.  Þetta er létt ganga og við flestra hæfi. 

Hækkun: 320 m

Vegalengd: Allt að 10km

Erfiðleikastig: 2

Tími: 3-4 klst

 

Langholtsfjall

Gengið frá tjaldsvæðinu Álfaskeiði um Hellisskarð. Mjög létt og skemmtileg ganga sem hentar öllum í fjölskyldunni.

Frábært útsýni er af Langholtsfjalli og blasir hin fallega Hekla við okkur.

Munnmæli herma að í Vatnsdalsvatni á Langholtsfjalli búi sami nykur og býr í vatninu uppi á Vörðufelli, ár í senn í hvoru vatni. Hann flytur sig um set um undirgöng á Jónsmessunótt og heyrast þá miklir dynkir og skruðningar.

Hækkun: ca 150 m 

Lengd: 1-2 klst

Erfiðleikastig: 1

 

Búrfell

Búrfell í Grímsnesi er móbersgsstapi, og grasi gróið fjall í Grímsnesinu. Fjalliðer 536 m yfir sjávarmáli. Ef ekið er frá Selfossi er farið um Biskupstungnabraut og þaðan er farið inn á Þingvallaveg eða Sogsveg og síðan er beygt inn á Búfellsveg nr. 531. Fjallið er auðvelt uppgöngu, en gera má ráð fyrir um 2 – 3 tíma göngu. Ef ekið er frá Selfossi eru 18 km að Búrfelli.

Fallegt útsýni er ofan af toppnum. Uppi á  fjallinu er kvos sem er forn gígur. Þar er dálítið vatn og segir sagan að tenging sé milli þess og Kersins í Grímsnesi. Í vatninu býr nykur sem fer á milli vatna og reynir að tæla menn til að setjast á bak sér og draga þá niður í undirdjúpin. Gangan er ekki mjög erfið, því að hækkun er jöfn og brekkur á leiðinni ekki mjög brattar.

Hækkun: 434 m

Erfiðleikastig: 2

Vegalengdi: fram og tilbaka með hring í kringum vatnið er um 8km.

Tími: 3-4 klst

Tölvupóstur